Stafafellskirkja / Restoration of a traditional church

Stafafellskirkja í Lóni
Endurgerð 1988-1989

Byggingarár 1866-1868. Kirkjan var friðuð 1990.

Stafafellskirkja er timburkirkja og sú kirkja sem nú stendur var byggð á árunum 1866-1868, yfirsmiður var Jón Jónsson trésmiður. Á árunum 1988 og 1989 voru endurbætur gerðar á kirkjunni undir stjórn Árna Kjartanssonar arkitekts hjá Glámu•Kím sem lagði áherslu á að upphaflega gerð kirkjunnar fengi notið sín. Skírnarfontur er útskorinn af Ríkharði Jónssyni listamanni.

Stafafellskirkja er í Bjarnanesprestakalli.

_ _ _

Stafafells-church,  Lón í Hornarfirði
Restoration project, 1988-1989

_ _ _ 

Saga Stafafellskirkju
rituð í Hraunkoti 22.08.98 af Sigurlaugu Árnadóttur

Skömmu eftir kristnitöku ár 1000 var kirkja byggð á Stafafelli. Kirkjan var helguð Maríu mey og því kölluð Maríukirkja.

Fyrstu skráðu heimildir um athafnir í kirkjunni er að finna í Sturlungu. Þar er frá því sagt að 24. ágúst árið 1201 söng presturinn Guðmundur Arason er seinna varð Guðmundur biskup góði sálumessu í Stafa-fellskirkju. Þá hafði borist þangað frétt um andlát Brands biskups á Hólum.

Í máldaga Vilchs biskups frá 1397 er þess getið að tveir prestar þjóni kirkjunni og 10 bæir greiði tíundir og ljóstolla.

Gamlir máldagar herma um miklar eignir kirkj-unnar, bæði jarðeignir, fylgifé í bústofni og bús-áhöld. Kirkjujarðir voru Stafafellsjörðin, hálf jörðin Vík, hálf jörðin Þórisdalur, Krossaland og Skálafell í Suður-sveit. Eyjan Vigur var og talin til eigna kirkjunnar og reki á fjöru frá Bæjarósi að Papósi. Dúntekja og selveiði voru og í Vigur, og voru þetta hin mestu hlunnindi.

Fylgifé í búfé var eftir máldaga Gísla Jónssonar, frá 1575, 12 kýr, 9 naut, 4 kálfar, 80 ær, 54 sauðir, 6 gimbrar og 7 hestar. Búsáhöldin voru talin pottar, katlar, keröld, trog, kanar, diskar og könnur, auk þess 5 sængur, smiðja, steðji, reksleggja, töng og hamar, einn bátur sexróinn og pundari. Allt skyldi þetta vera í góðu standi er skilað var til næsta prests er tók við stað og embætti.

Þetta fylgifé kirkjunnar hélst lítt skert fram á byrjun 18. aldar, en úr því fer að breytast. Lifandi búfé fækkar mjög á 19. öld og komst loks niður í 10 ær, 4 sauði, 1 hest og eina hryssu. Búslóðin hverfur líka smátt og smátt og í lok 19. aldar er hún með öllu horfin.

Eftir lagaákvæðum frá 1907 sló ríkið eign sinni á allar eignir kirkjunnar. Jarðirnar seldi ríkið eftir mati, utan Krossaland sem enn er ríkiseign, nú í eyði.

Sá búpeningur sem eftir var í eigu kirkjunnar var seldur á uppboði árið 1911 og rann andvirði þeirra eigna einnig í ríkissjóð. Stafafell var og um það leyti afnumið sem prestsetur. Þó sat séra Jón Jónsson þar áfram meðan hann lifði, eða til ársins 1920.

Stafafellskirkju og sókn hefur síðan verið þjónað af Bjarna-nesprestum.

Við brauðamat, sem gert var 1854 eru tekjur og eignir Stafafellsbrauðs taldar upp og þá nefndar auk áður talinna kirkjujarða hjáleigur Stafafells, sem voru Valskógsnes, Eskifell, Byggðarholt og Hraunkot.

Tekjur Stafafellsbrauðs voru þá alls 291 ríkisdalir og voru hæstu sóknartekjur í sýslunni. Þá voru 17 jarðir í byggð í Bæjarhreppi og íbúatalan 200 manns.

Laun presta voru þá tekjur af eignum kirkjunnar og fóru einnig eftir tölu og efnahag búenda. Stafafell var því gott brauð og prestar undu þar yfirleitt vel hag sínum.

Frá prestum fyrir siðaskipti eru óljósar heimildir, en frá 1546 til 1920 sátu 20 prestar staðinn. Fyrstur í þeirri röð var séra Jón Einarsson, hálfbróðir Gissurar Einarssonar birkups.

Nefna mætti fleiri, t.d. séra Högna Sigurðsson er sat staðinn 1726-1750. Hann var fyrsti prestur á Íslandi sem skráði prestþjónustubækur.

Annar prestur með sama nafni, séra Högni Jónsson sat staðinn árin 1610-1636. Til minningar um hann og konu hans Herdísi Nikulásdóttur, sem var áður ekkja Halldórs Marteinssonar, Einarssonar birkups, var Stafafellskirkju gefin altaristafla sem enn er í kirkjunni. Á þeirri töflu , sem er dýrgriupur, er meðal annars mynd af þeim séra Högna og Herdísi.

Séra Bjarni Sveinsson sat staðinn frá 1862-1878. Á prestskaparárum hans var sú kirkja reist sem enn stendur á Stafafelli. Var hún byggð á árunum 1866-1868. Var það timburkirkja, sem kom í stað torfkirkju er áður var og var að falli komin. Séra Bjarni hýsti einnig Stafafellsbæ vel og smyndarlega.

Yfirsmiður við Byggingu kirkjunnar var Jón Jónsson, faðir Þorleifs Jónssonar alþingismanns í Hólum í Nesjum. Var þar vel og faglega að verki staðið. Jón var lærður trésmiður, lærði í Kaup-manna–höfn og hafði sveinsbref þaðan.

Miklar endurbætur hafa verið gerðar á kirkjunni á þessari öld. Árið 1961 voru t.d. nýir gluggar settir í hana, veggir þiljaðir, hún máluð og myndir á predikunar-stól skýrðar upp. Var það verk unnið af Ásgeiri Guðmundssyni á Höfn.

Á árunum 1988 og 1989 voru gerðar gagngerðar lagfæringar og endurbætur á kirkjunni undir leiðsögn og yfirumsjón Árna Kjartanssonar arkitekts, sem lagði áherslu á að upphafleg gerð kirkj-unnar fengi notið sín. Auk Árna lögðu þar aðalhönd að verki frábærir smiðir, Halldór Sigurðs-son í Miðhúsum og Sigurður Geirsson á Höfn.

Fleiri komu þar að sjálfsögðu að framkvæmd og var það á allan hátt vel gert. Sóknarnefndarformaður var Þorsteinn Geirs-son á Reyðará, sem segja má að hafi borið hita og þunga þessa framtaks.

Kirkjan í núverandi mynd er með ágætum og sveitasómi.

Prestar þeir sem þjónað hafa Stafafellskirkju ásamt Bjarnanessókn frá 1920 til þessa dags eru 8 talsins. reyndar mætti segja 10, en tveir þeirra leystu af í stuttan tíma.

Marga góða gripi hefur kirkjan eignast. Má þar til nefna orgel, nýja altaristöflu málaða af ungri stúlku í sveitinni, Kristínu Stefánsdóttur á Hlíð, skírnarfont útskorinn af Ríkharði Jónssyni listamanni, gefinn á 100 ára afmæli kirkjunnar af sóknarbörnunum, kertastjaka, blómavasa, nýjan hökul, dregil á gólf, fermingarkirtla o.fl., gefið af velunnurum og kvenfélagi.

Kirkjan hefur verið vísiteruð af 15 biskupum frá árinu 1645 auk nokkurra prófasta. Einn biskupinn, herra Brynjólfur Sveinsson vísiteraði Stafafellskirkju 7 sinnum.

Nú er sjaldan messað í Stafafellskirkju, en hún er enn í dag Guði helgað hús þar sem kynslóð eftir kyn-slóð hefir tilbeðið almáttgan Guð og lyft hug hátt í hæðir; “upp yfir stund og stað, stjörnur og sól”.

Og enn er í fullu gildi sá hornsteinn kristinnar lífs-skoðunar að eigi skaltu gera öðrum það sem þú vilt eigi að þér sé gjört.

Hraunkoti 22.08.98

Sigurlaug Árnadóttir