Lækjargata 12 – Hugmyndasamkeppni um hótel í Kvosinni

Lækjargata 12 – Hugmyndasamkeppni um hótel í Kvosinni
Lokuð boðskeppni
2015

Hér má hlaða niður greinagerð tillögunnar:
LÆK12_GLAMAKIM_GRG

Tillaga Glámu Kíms Arkitekta varð hlutskörpust í lokaðri samkeppni um hótel sem áformað er að byggja á lóðinni Lækjargata 12, á horni Lækjargötu og Vonarstrætis. Samkeppnin var boðskeppni. Aðrir þátttakendur voru Studio Granda í samvinnu við Gullinsnið og Basalt Arkitektar. Verkkaupi er Íslandshótel hf.

Horn Lækjargötu og Vonarstrætis er áberandi staður í miðborg Reykjavíkur og verður hótelið ein af þeim nýbyggingum sem standa á lykilstöðum í Kvosinni. Aðalhlið hótelsins mun snúa að Lækjargötu, en uppbrot og áherslur undirstrika innri skipan þess. Húshlið að Vonarstræti tekur mið af hæð og hlutföllum Vonarstrætis 4, sem er höfundarverk Guðjóns Samúelssonar.

Í tillögunni er sérstök áhersla lögð á að skapa aðstöðu fyrir lifandi starfsemi sem fellur inn í bæjarvefinn á hógværan hátt. Leitast er við að fanga uppbrot og takt í byggðinni umhverfis. Samsett form, inndregnar hæðir, áferð og efniviður laga sig að heildarmynd nærliggjandi húsa og húsaraða og tryggja samfellu og heildaryfirbragð, svo úr verður heildstæður borgarreitur með góðum garðrýmum.

Hótelið er fjögurra stjarna-, 115 herbergja, það verður hæst fimm hæðir auk kjallara. Á jarðhæð verða verslanir, veitingasalur og bar, eldhús og skrifstofur, auk nokkurra hótelherbergja, í kjallara verða þjónusturými og bílastæði og á 2. – 5. hæð verða hótelherbergi. Á þremur efstu hæðum verða þaksvalir fyrir hótelgesti, þar sem njóta má útsýnis til allra átta.

Bak við hótelið verður fallegur, skjólsæll garður sem tengist almenningsrýmum hótelsins á jarðhæð. Garðurinn tengist öðrum bakgörðum á reitnum og porti við Vonarstræti. Hann bætist því í vef almenningsrýma í miðbæ Reykjavíkur. Hótelgarðurinn verður hjarta reitsins og dregur að bæjarbúa ekki síður en hótelgesti.

Brúttóstærð byggingarinnar ofanjarðar verður um 5000m² og brúttóstærð kjallara verður um 1500m² sem er innan þeirra marka sem deiliskipulag reitsins heimilar.

_ _ _

Lækjargata 12
Invited competition
2015