Sjúkrahótel við Hringbraut

Sjúkrahótel
2017

Í hótelinu verða 75 herbergi, veitingasalur og aðstaða fyrir fjölskyldur, auk stoðrýma. Húsið rís á norðurhluta lóðar Landspítala við Hringbraut milli Kvennadeildar, K-byggingar og Barónsstígs, áfast gamla Ljósmæðraskólanum.

Sjúkrahótelið er kjallari og fjórar hæðir og mun það tengjast Barnaspítala Hringsins og Kvennadeild um tengigang í kjallara. Byggingin er 4.258 fermetrar að stærð með kjallara og tengigöngum sem tilheyra hótelinu. Við hönnunina var að auki mikil áhersla lögð á vistvæn byggingarefni og -aðferðir og er stefnt að því að byggingin hljóti vistvæna vottun samkvæmt alþjóðlegum stöðlum.

Húsið er staðsteypt og einangrað að utan, klætt með granítklæðningu sem er sambærileg þeirri sem er á Barnaspítala Hringsins og er útfærð í samstarfi við myndlistarmanninn Finnboga Pétursson. Steinklæðningin er í raun listskreyting hússins en listaverkið er unnið samkvæmt samkomulagi við Listskreytingarsjóð.

Efnisval innandyra tekur mið af starfseminni og þeirri stað- reynd að dvalartími hótelgesta verður lengri en almennt gerist á hótelum. Komið verður til móts við fjölbreyttar þarfir þeirra sem hótelið nota en miðað er við að gestirnir verði ýmist einstaklingar sem eru að jafna sig eftir að- gerðir, fólk í eftirmeðferð, rannsókn eða lyfjagjöf, og aðstandendur sjúklinga eða hótelgesta.

Aðalhönnuðir sjúkrahótelsins eru Koan-hópurinn sem samanstendur af arkitektastofunum Glámu-Kími og Yrki og verkfræðistofunum Conís og Raftákni. Til ráðgjafar voru Verkís (eldvarnir og hljóðvist) og Verkhönnun (BREEAM – vottun). Hljóðvistarhönnun og brunatæknileg hönnun var unnin í samstarfi við Verkís og forhönnun, skipulagsgerð, hönnun gatna og lóðar var unnin af Spital-hópnum.

Verklok eru áætluð vorið 2017.