Laugavegur 120 / Center Hotel

Center Hotels Miðgarður
Laugavegur 120
2015 – 1. Áfangi
2017 – 2. Áfangi

Byggingin að Laugavegi 120 hýsir 170 herbergja hótel með veitingastað, opinni móttöku, bar, fundarsölum og glæsilegri heilsulind. Gláma•Kím sá um hönnun deiliskipulags, endurgerð- og endurinnréttingu eldri hluta hússins, viðbyggingar, innra fyrirkomulags og innréttinga. Jafnramt var efnis- og litaval ásamt húsgagnavali gert af stofunni.

Eldri hluti hússins að Laugavegi 120 var byggð á árunum 1967-68 eftir teikningum Gunnars Hanssonar og Magnúsar Guðmundssonar fyrir Búnaðarbanka Íslands. Endugerð bankahússins lauk í júní 2015 og hófust þá framkvæmdir við viðbygginguna sem kláruðust að fullu í september 2017.
Veitingastaður er á jarðhæð með beinu aðgengi frá götu. Í tengslum við jarðhæð er inngarður, réttnefndur Miðgarður, með fallegri klöpp og heitum potti sem tengist bæði jarðhæð og heilsulind í kjallara. Eldhús, starfsmannaaðstaða og önnur stoðrými hótelsins eru á jarðhæð og í kjallara. Hótelherbergin eru öll á efri hæðum hússins og eru með glæsilegu útsýni yfir borgina.
Í eldri hlutanum fellur innra skipulag hótelsins að takti gamla hússins og reynt var að halda í það sem hægt var að nýta. Þar ber helst að nefna stigahús sem hefur marmaragólf og handrið úr tekki, stáli og plexigleri. Upprunalegar peningahvelfingar bankans fengu líka að halda sér og eru nú notaðar sem víngeymslur.

Hver hæð hótelsins hefur sitt litaþema sem endurspeglast í merkingum, litum á veggjum, húsgögnum og textíl. Nýbyggingin tekur mið af hæð og takti bygginganna í kring og ýmislegt úr eldri hlutanum var notað sem innblástur í nýja hlutann, t.a.m. stigahúsin. Byggingarnar tvær flæða saman í eina heild þó svo að nýbyggingin sé verðugur fulltrúi arkitektúrs frá árinu 2017. Allar innréttingar eru sérhannaðar og innanhúshönnunin hefur fallegt heildaryfirbragð. Verkefnið endurspeglar árangursríka og þverfaglega samvinnu arkitekta, hönnuða og verkfræðinga.

Samstarfsaðilar: Ferill: lagnir og burðavirki, Verkhönnun: rafmagn, Verkís: brunahönnun, Trivium: hljóðvistarhönnun, Landslag: landslag, Ármann Agnarsson grafískur hönnuður: grafík og merkingar.

Verkkaupi: Mannverk og Center Hotels

Ljósmyndir: © Nanne Springer

_ _ _

Center Hotels Miðgarður
Laugavegur 120
2015 – 1st phase
2017 – 2nd phase

Architets: Gláma•Kím
Designers team: Ferill, Verkhönnun, Verkís, Trivium and Ármann Agnarsson.
Client: Mannverk and Center Hotels
Photographs: © Nanne Springer