Fjöregg | Útsýnisstaður á Súgandisey við Stykkishólm

Útsýnisskúlptúrinn Fjöregg er vinningstillaga í samkeppni um útsýnisstað á Súgandisey við Stykkishólm. Samkeppnin var var haldin í samstarfi við Félag Íslenskra Landslagsarkitekta. Tillagan er unnin af Glámu-Kím í stamstarfi við Landslag, Ólöfu Nordal og Gunnar Karlsson.
2020

Fjöreggið er útsýnisskúlptúr, útsýnispallur, upplifunar- og áningastaður allt í senn. Fjöreggið verður sýnilegt frá bænum og því forvitnilegt aðdráttarafl fyrir gesti og gangandi. Það er hugsað sem kennileiti fyrir Stykkishólm og sem glettinn, gamansamur og óvæntur áningastaður til að njóta Súgandiseyjar og útsýnisins yfir Breiðafjörð og eyjarnar.

Leitast var við að finna jafnvægi á milli þess náttúrulega og manngerða, þar sem varfærni, virðing og auðmýkt gagnvart staðnum voru leiðarstef í hugmyndavinnu og lausn verkefnisins. Markmiðið var að hrófla við sem minnstu og bæta við sem fæstu. Þannig er notað efni sem fyrir er í eynni, bæði huglægt og efnislega. Unnið með formgerð svæðisins, liti og tákn og vísanir í gamlar sagnir og trú.

Við Breiðafjörðinn finnast egg og eggjaskurnir alls staðar þar sem farið er um sem myndbirting þess að hér hafi kviknað líf og að lífkeðjan sé enn órofin. Gæfan og lífið er fallvalt og viðkvæmt. Fjöreggið í Stykkishólmi vegur salt á egginni til áréttingar um að leika okkur ekki að fjöreggi náttúrunnar, heldur í fjöreggi náttúrunnar.