Viðbygging við sumarhús í Árnesi/ Extension to a summerhouse in South Iceland

 

Viðbygging við sumarhús í Árnesi
Á lóðinni stóð eldra sumarhús, týpuhús smíðað á Selfossi og flutt á staðinn fyrir rúmum 40 árum síðan. Húsið hefur verið notað af fjölskyldunni til margra ára. Hugmyndin að viðbyggingu spratt upp þegar fjölskyldan fór stækkandi og umræðan um að það þyrfti að koma fyrir fleiri gistiplássum við sumarhúsið svo að allir gætu verið saman fleiri daga á ári öll saman í sumarhúsinu.

Viðbyggingunni er ætlað að ramma inn umhverfið í kringum eldra húsið á lóðinni ásamt því að styrkja öll útirými m.t.t. skjólmyndunar og útiveru í beinum tengingum við vistarverur. Viðbyggingin er staðsett aftan við eldri hluta hússins og tengist eldra húsi með tengigangi. Með því að staðsetja viðbygginguna aftan við eldra húsið getur eldra húsið notið sín áfram, en á sama tíma myndar nýja viðbyggingin skjól og nýjar tengingar út í gróið svæði umhverfis húsið. Efnisval tekur mið af eldri byggingu, á meðan að form og stefna taka mið af tíðaranda og umhverfi. Byggingin er klædd standandi greniklæðningu sem er máluð með sérvöldum oxíðrauðum lit sem vísar til sænskra arfleiðar. Þetta var gert meðal annars til þess að gefa því gamla og nýja sama yfirbragðið.

Á sama tíma og stækkunin var byggð þá var stofurými hússins stækkað út í áður samþykkt útirými og glugginn stækkaður niður í gólf til að gefa meiri birtu inn í stofuna. Við það stækkar stofan um 10m2 sem gefur kost á því að fleiri geti notið samvistar í stofurými hússins og haldið betur utan um hópinn sem dvelur hverju sinni.

Framkvæmdaraðili: Páll Ingi Árnason á Leiti og Halldór Hjartarson. (Ingvar Þrándarson)

Samstarfsaðilar:
Verkfræðistofa Þráinn og Benedikt ehf. – Burðaþol og lagnir
Voltorka, Helgi Pálsson – Raflagnir og lýsing

Ljósmyndir: © Hlynur Daði Sævarsson

_ _ _

Summerhouse extension