Skipulagsstofnun / National Planning Agency

Skipulagsstofnun, Borgartúni 7
2017

Endurinnrétting hluta jarðhæðar og kjallara húseignarinnar Borgartún 7 fyrir starfsemi Skipulagsstofnunar.

Húseignin Borgartún 7 var reist á seinni hluta 5. áratugar síðustu aldar af Almenna Byggingarfélaginu sem vörugeymsla og iðnaðar- og skrifstofuhúsnæði. Síðast hýsti húsnæðið starfsemi Námsmatsstofnunar.

Húsið er með staðsteypta útveggi og steypt súlu-og bitaburðarvirki að innan var teiknað af arkitektunum Herði Bjarnasyni, Ágústi Steingrímssyni og Gunnlaugi Pálssyni. Húsið er fallegt dæmi um randbyggt hús í borg og verðugur fulltrúi síns tíma í mikið breyttri götumynd Borgartúns.

Inngangur í húsnæðið var færður á upprunalegan stað beint inn af horninngangi á horni Borgartúns og Guðrúnartúns, en þannig er aðgengi fyrir alla mjög gott. Jafnframt var starfsemi jarðhæðar og kjallara tengd saman með nýjum stiga. Í kjallara þar sem áður var bílskúrshurð var komið fyrir stórum glugga og viðar gönguhurð sem tengir saman bókasafn/fundaaðstöðu/félagsrými við útirými sem snýr inn í port.

Á efri hæð eru inngangur, móttaka með kynningarrými, fundarherbergi og opin vinnurými starfsmanna. Á neðri hæð eru kaffistofa, stórt fundarherbergi, bókasafn og skjalageymslur.

Í efnisvali var bæði horft til þess tíðaranda sem ríkti þegar húsið var byggt og nútímalegra efna. Veggir eru hvítmálaðir og loft ýmist klædd hvítum dúki eða kerfisloft með földu kerfi en öll loft eru með mikilli hljóðeinangrun. Glerveggir tryggja gegnsæi og gott birtuflæði.

Á gólfum er lakkaður náttúrukorkur og viður í stigaþrepum, glugga og súluklæðningum er mahóný. Tærir litir eru notaðir markvisst á ákveðnum stöðum, veggjum, innréttingum og flísum, blátt, rautt og gult, til að undirstrika mismunandi starfstöðvar og til að upphefja rými og tengingar á milli rýma.

Nær allur húsbúnaður er íslenskur, frá Á. Guðmundssyni ehf. Þar var valinn stóllinn Sproti, eftir Erlu Sólveigar Óskarsdóttur húsgagnaarkitekt er áberandi með og án áklæðis í mismunandi litum allt eftir eðli starfseminnar. Sófaborð er frá Agustav en aðrar innréttingar eru hannaðar af Glámu-Kími.

Samstarfsaðilar voru Verkfræðistofa Þráins og Benedikts og Verkís.
Samstarf við starfsfólk Skipulagsstofnunar var náið og uppbyggilegt, frá upphafi til enda. Ríkiseignir önnuðust verkumsjón, eftirlit og framkvæmd.

Gláma Kím óskar Skipulagsstofnun velfarnaðar á nýjum stað.

Ljósmyndir: © Nanne Springer

_ _ _

National Planning Agency – New offices
2017

Interior design for the National Planning Agency. New offices in an existing building from the 1940´s. Located in the centre of Reykjavik.

Photographs: © Nanne Springer